Hvolskóli leigður undir kvikmyndatökulið

Hvolsskóli. Ljósmynd/Rangárþing eystra

Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið TrueNorth hefur tekið á leigu allt húsnæði Hvolsskóla á Hvolsvelli frá og með deginum í dag til laugardagsins 21. júní.

Von er á fjölmennu liði leikara og starfsmanna á vegum fyrirtækisins á Hvolsvöll vegna upptöku á erlendri stórmynd en tökurnar fara fram í Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi. Alls munu um 400 manns sem starfa við framleiðslu myndarinnar vera á svæðinu næstu daga.

Í tilkynningu frá Rangárþingi eystra segir að töluverð leynd liggi yfir verkefninu og leigan á Hvolsskóla hafi komið til með mjög skömmum fyrirvara. Það komi til vegna þess að tjaldbúðir TrueNorth sem búið var setja upp í Vík í Mýrdal, fuku og eyðilögðust í roki í vikunni. Því þurfti að hafa hraðar hendur og finna aðra gistingu fyrir þennan stóra hóp.

Kvikmyndatökur munu að mestu fara fram á næturnar og vegna þessa óvenjulega vinnutíma mun hópurinn sofa í Hvolsskóla yfir daginn. Íbúar á Hvolsvelli eru beðnir um að sýna því skilning.

Fyrri greinTímamótasamningur um verklega kennslu slökkviliðsmanna í útkallsstarfi
Næsta greinSumarhátíðir og bætt þjónusta