Hvetur veiðimenn til að sleppa sem flestum löxum

Glænýr Ölfusárlax. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þar sem ljóst er að laxagöngur eru litlar í sumar hvetur Hafrannsóknastofnun veiðifélög og stangveiðimenn til gæta hófsemi í veiði og að sleppa sem flestum löxum aftur eftir veiði.

Þetta er mikilvægt til að hrygningarstofninn í haust verði eins sterkur og unnt er.

Laxveiði í ám landsins hefur með minnsta móti í sumar og eru nokkrar ástæður fyrir því. Á Suður- og Vesturlandi var klakárgangurinn frá 2015 lítill sem leiddi til færri gönguseiða sem gengu út 2018 og þar með færri löxum nú í sumar. Auk þess hefur verið lítið vatn í ánum í sumar og aðstæður fyrir uppgöngu laxa og veiði með versta móti líkt og veiðitölur það sem af er sumri bera með sér.

Miðað við núverandi aðstæður er ljóst að hrygningarstofnar haustsins verða með minnsta móti og hvetur Hafrannsóknastofnun veiðimenn og veiðiréttarhafa til að gæta hófs við veiðar og sleppa sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.

Fyrri greinNoregsferð Unglingakórs Selfosskirkju
Næsta greinÆgismenn í góðum málum – Spenna framundan hjá KFR og Árborg