Hvetja Íbúðalánasjóð til að fresta sölu íbúða í leigu

Íbúðalánasjóður bauð Sveitarfélaginu Árborg um það bil 40 íbúðir í sveitarfélaginu til kaups en bæjaryfirvöldum hugnaðist ekki nema ein íbúð sem í boði voru.

Flestar þessara íbúða eru í útleigu en mikill meirihluti eignanna henta Árborg ekki sem félagslegt leiguhúsnæði sökum staðsetningar, stærðar, aldurs og viðhaldsþarfar.

Þó óskaði bæjarráð eftir því að framkvæmdastjóri sveitarfélagsins kanni hugmyndir ÍLS um söluverð einnar þeirra íbúða, sem í boði voru en hún er ekki í notkun.

Í bókun á síðasta fundi bæjarráðs er því beint til Íbúðalánasjóðs að hætta við uppsagnir á húsaleigusamningum, enda er verulegur skortur á íbúðarhúsnæði til leigu í sveitarfélaginu um þessar mundir.

„Það er ljóst að þeim einstaklingum og fjölskyldum sem leigja af Íbúðalánasjóði yrði erfitt um vik að verða sér úti um annað leiguhúsnæði. Margar íbúðir eru hins vegar í byggingu og má vænta þess að þær komi á markað 2018 og 2019 og gæti þá orðið meira framboð af leiguhúsnæði,“ segir í bókun bæjarráðs sem beinir því til Íbúðalánasjóðs að fresta áformum um sölu þeirra íbúða sem eru í leigu næstu 2-3 árin.

Fyrri greinFrábær tónlistarveisla og fjör á Blómstrandi dögum
Næsta greinEgill eini Íslendingurinn á HM