Hvetja Björgvin til að víkja

Miðstjórn Ungra jafnaðarmanna hvetur Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi oddvita Ásahrepps, til að stíga til hliðar sem varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi uns hann nýtur aftur trausts flokks síns og almennings.

Í tilkynningu frá miðstjórninni segir að ungum jafnaðarmönnum sé brugðið vegna fréttanna af Björgvini G., sem fór ranglega með opinbera fjármuni í starfi sínu sem sveitarstjóri Ásahrepps og brást þar með trausti almennings.

„Mikilvægt er að skattgreiðendur standi í vissu um að opinberir fjármunir séu aðeins notaðir í almannaþágu en renni ekki í vasa opinberra starfsmanna. Í því samhengi skiptir ekki máli hvort að fjármunir eigi að stoppa þar við í styttri eða lengri tíma. Í ljósi þessa hvetja Ungir jafnaðarmenn Björgvin til að stíga til hliðar sem varaþingmaður Samfylkingarinnar uns hann nýtur aftur trausts flokks síns og almennings,“ segir í tilkynningunni þar sem að Björgvini er að lokum óskað góðs bata og velfarnaðar.

Fyrri greinViðar Örn á leið til Kína
Næsta greinSamninganefnd Bárunnar fagnar skilningi ráðamanna