Hvert á að vísa gestunum?

Tómas Ellert Tómasson, nýskipaður formaður starfshóps vegna landsmóta UMFÍ á Selfossi, segir að mesta vinnan felist í undirbúa bæinn til að taka á móti ríflega 10.000 gestum.

Til stendur að halda unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi árið 2012 og landsmót UMFÍ árið 2013.

„Hlutverk starfshópsins er að taka við óskum frá landsmótsnefnd og uppfylla þeirra kröfur,“ segir Tómas Ellert en starfshópurinn heldur sinn fyrsta fund í þessari viku. Auk Tómasar eru nefndarmenn Helgi S. Haraldsson, Ásta Stefánsdóttir og formenn nefnda sem snúa að æskulýðs og skipulagsmálum.

Tómas Ellert segir að allt sem þurfti til íþróttahalds sé til staðar nú þegar, meira eða minna. Hins vegar hafi Selfossbær aldrei tekið á móti öðrum eins fólksfjölda og slíkt krefjist mikillar skipulagsvinnu. Fyrir bæði mótin þurfi tíu til tólf hektara undir tjaldstæði með tilheyrandi aðstöðu; almenningssamgöngum, vatnslögnum, salerni og rafmagni.

„Á unglingalandsmótinu í Borganesi nú í sumar tvöfaldaðist til dæmis rafmagnsnotkun í bænum,“ bendir Tómas Ellert á. Hann segir að nokkrir staðir komi til greina undir tjaldstæði en þeirri vinnu þurfi helst að ljúka í haust.