Hversdagsmyndir að hætti listamannsins

„Vinkona mín Edda Björnsdóttir hvatti mig til að gera hversdagsteikningar í stað hversdagsljósmynda. Ég gat ekki skorast undan því, fannst það alveg tilvalið.“

Þetta segir myndlistamaðurinn Hallur Karl Hinriksson en undanfarin misseri hefur verið svokallaður hversdagmyndaleikur í gangi á samskiptamiðlinum Facebook. Hallur ákvað að birta sínar hversdagsmyndir með öðrum hætti en flestir aðrir sem hafa tekið þátt í þessum leik. „Þetta eru tússmyndir í teikniblokk, ég litaði eina. En þetta eru bara litlar skissur sem ég hafði ekki hugsað mér að bjóða falar,“ segir Hallur.

Hér má sjá hversdagsmyndir Halls og textann sem hann ritaði við hverja og eina.

Hér er fyrsta hversdagsteikningin. Þakka áskorunina. Teikningin er eins hversdagsleg og ég mögulega gat haft hana. Það er nákvæmlega ekkert til hversdagslegra hér á Litlu-Háeyri en vinkona mín kaffikannan. Semsagt, hversdagsteikning 1/5.

Hversdagsteikning 2/5. OK, Nokia 5140i – „The Builder’s Phone“ – model 2005 – einhver langlífasti gripur í minni eigu og fer þangað sem ég fer, og hefur alltaf komið til baka með mér. Hann hefur aldrei týnst í meira en korter. Hann hefur þolað Landgræðsluna, Frakklandsferðir, Selfoss, Reykjavík (að degi sem nóttu), Ísbílasumarið mikla, hið klassíska „snjór í vasa – problem“, gegnum súrt og sætt. Heldur hleðslu í 3 – 4 daga þrátt fyrir háan aldur, og hann hefur aldrei orðið batteríslaus. Myndavélin í honum virkar ennþá en ég nota hana aldrei því það er tímafrekt að senda tölvupóst með honum og hann fer ekki nær netinu en það. Það er hallamál í honum. Fagrar konur hafa sagt mér að hann sé töff.

Hversdagsteikning 3/5. Hér er af rafmagnsgítar sem ég keypti árið 1996. Hann er af Washburn Lyon gerð, sem er einn af mörgum þykjustu Stratocaster týpum. (Magnarinn er Line 6 digital æfingajúnit með alskonar sándum.) Þessi gítar er verðlaus garmur, en heldur reyndar ágætri stillingu, jafnvel á sviði. Í honum hefur verið talsvert sannfærandi overdrive sánd alveg frá því pabbi brýndi útskurðarjárnin sín óvart yfir hann allann (hann stóð undir smergelinu útí bílskúr) og seglarnir í pikkuppunum fylltust af stálryki. Hann hefur líka feedbackað geðveikt mikið síðan þá. Þessi gítar fékk að taka þátt í stofnun Dys hér í denn og átti sínar stærstu stundir (hingað til) á tónleikunum á Grand Rokk, þegar ég sleit 3 strengi, og á Fokk Nato í Tjarnarbíói hvar við í Dys trylltum lýðinn með þunga pönkinu okkar. Svo fór ég aftur til Frakklands og gítarinn fór í pásu í mörg ár. Núorðið er hann alltaf við hendina á vinnustofunni, og hann er notaður daglega til að koma blóðinu á hreyfingu, komast í gír eða tjúna mig niður. Hugleiðsla? Jóga? Rafmagnsgítar.

Hversdagsteikning 4/5. Mínerölsk terpentína er því miður hluti af mínu daglega lífi. Hún er algjört ógeð. Hún lyktar illa, spillir umhverfinu og brýtur niður olíur – sem er einmitt ástæða þess að hún er mjög góð í að þrífa olíumálingu af og úr penslum, buxnarössum og hnjám, gólfinu, veggjunum, verkfærunum, símanum, nýju skónum mínum, hurðarhúnum, gítarhálsinum, takkaborðinu, blöndunartækjunum, myndavélinni, lopapeysunni sem mamma prjónaði og svo af gleraugunum mínum. Það er auðvitað mjög sniðugt að geta gert það. En ég ítreka: mínerölsk terpentína er mjög óholl og það er nauðsynlegt að skella penslunum í smá sápu á eftir, að ég tali ekki um hendurnar. Ég set þetta helvíti aldrei í andlitið á mér. Ég set hana heldur aldrei í litina mína því einmitt vegna þess að hún brýtur niður olíur þá gerir hún litina óstöðuga og matta. Ekki nota míneralska terpentínu í litina þína! Það er langur kafli í bókinni „Artists Beware!“ (sem er um óholl efni í myndlistargerð) um skaðsemi míneralskrar terpentínu. Hún er Satan!

Hversdagsteikning 5/5. Hér er um tölvuna mína að ræða. Hún er í CoolerMaster HAF kassa með 4 stórum viftum, og inniheldur kassinn Asus M5A99 EVD móðurborð sem í er tengdur AMD Phenom II X4 955 3.20 GHz örgjörfi sem kældur er með CoolerMaster V8 örgjörfakæliviftu; R7850 TWIN FROZR 2GD5/OC skjákort, 1 TB harður diskur ásamt 60 GB SolidStateDisk fyrir stýrikerfið; 2x4GB Vengeance RAM vinnsluminniskort. Það er eitthvað meira dót þarna inni sem gerir ýmislegt. Það er aflgjafi þarna sem ég man ekki hvað heitir og svo er talsvert af litríkum snúrum, geisladrif og fullt af plöggum fyrir hin og þessi viðtæki. Skjárinn er Philips 237Eq 23 tommu IPS LED skjár, lyklaborðið er Corsair K60 Cherry Red mekanískt lyklaborð, músin er Logitech G400, og svo er þarna Logitech HD C270 720p Webcamera. Það er nú það. Margt má segja um tölvur en þessi er hluti af daglegu lífi mínu. Ég keypti hana notaða fyrir 3 árum og hún hefur reynst mér vel. Hún hefur aldrei krassað illa, 7 – 9 – 13, ég hef endurnýjað skjákortið einvörðungu. Það er sagt um vinnustofur að þær séu eins og framlenging á heilanum, stór heili utan um heilann í hausnum á þeim sem í henni starfar. Það sama má segja um tölvur, nema að í gegnum þær getur maður aukinheldur tengst öðrum heilum og farið inn í risaheila eins og Wikipediu, Youtube og Facebook. Ég elska tölvuna mína. Hún er líka talsvert betri í reikningi en ég. PS: Þakka í lok þessarar seríu skemmtileg viðbrögð frá ykkur öllum. Takk Edda Björnsdóttir fyrir áskorunina. Sjáumst hress á næstunni. Rétt er að minna á Jónsmessuna hér á Bakkanum laugardaginn 21 júní. Ég verð með opna vinnustofu, það er brenna um kvöldið. Látið sjá ykkur!

Fyrri greinRangæingar töpuðu í Kaplakrika
Næsta greinBrenndist á báðum fótum