Íbúar Hveragerðisbæjar rufu 3.000 íbúa múrinn í gær og eru íbúar þar nú 3.004 talsins. Íbúafjöldinn hefur aukist hratt á síðustu árum og var fyrirséð að múrinn yrði rofinn snemma á þessu ári.
„Hveragerði er vinsæll staður og íbúðarhúsnæði selst hratt. Íbúar eru nú 3.004 en á árið 2000 voru þeir 1.768. Á þessu tímabili hefur semsagt fjölgað í bæjarfélaginu um 70% og 1.236 nýir íbúar hafa bæst við frá árinu 2000 sem er fjölgun langt yfir landsmeðaltali,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Á árinu 2021 nam fjölgunin 8% og var það mesta fjölgun íbúa á landinu það árið. Aldís segir að ekkert lát sé á fjölguninni því nú eru ríflega 200 íbúðir í byggingu í bænum.
„Þá eru ótalin þau áform sem framundan eru á árinu en fljótlega hefjast framkvæmdir við fyrsta áfanga nýs hverfis við Heilsustofnun NLFÍ þar sem munu verða um 80 íbúðir. Í Hlíðarhaga munu rísa 45 íbúðir, á lóð Tívolísins sáluga er nú verið að teikna 68 íbúðir og á öðrum svæðum munu rísa hátt í 200 íbúðir á örfáum árum. Það er gríðarleg eftirspurn eftir búsetu í Hveragerði,“ segir Aldís og bætir við að það hafi einnig verið afar ánægjulegt að sjá að íbúar í Hveragerði eru ánægðastir allra þegar spurt var um ánægju með þjónustu bæjarfélagsins í árlegri skoðanakönnun Gallup.
„Slíkt ber bæjarfélaginu og bæjarbúum gott vitni. Slík mæling er sú sem við metum mest enda er það svo sem ekkert kappsmál að stækka hratt. Það er miklu frekar kappsmál hjá okkur öllum að hér sé gott samfélag sem hlúir vel að sínum íbúum. Það er það sem skiptir öllu máli þegar upp er staðið,“ sagði Aldís að lokum.