Hvergerðingar gagnrýndir fyrir skeytasendingar í fjölmiðlum

Í Reykjadal. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Bæjarstjórn Ölfuss hefur falið Elliða Vignissyni bæjarstjóra að eiga sem fyrst fund með umhverfis- og orkumálaráðherra, til þess að ítreka vilja Sveitarfélagsins Ölfuss til orkunýtingar á Hengilssvæðinu, sem og víðar í sveitarfélaginu.

Tillaga þess efnis var samþykkt samhljóða á síðasta bæjarstjórnarfundi í framhaldi af umræðu um Reykjadalinn og bókanir bæjarstjórnar Hveragerðis um hugsanlega orkunýtingu þar. Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðis í nóvember voru hugmyndir Ölfusinga um orkunýtingu í Reykjadal gagnrýndar harðlega og telja Hvergerðingar það afar óábyrgt af bæjarstjóra Ölfuss að viðra þetta mál í fjölmiðlum.

Kveður við nýjan tón í samskiptum sveitarfélaganna
Á bæjarstjórnarfundi Ölfuss í síðustu viku var samþykkt bókun þar sem Ölfusingar lýsa furðu sinni á framgöngu nágranna sinna í Hveragerði í þessu máli.

„Sérstaka undrun vekur að bæjarstjórn Hveragerðis velji skeytasendingar á bæjarstjórn og orðaleppa í fjölmiðlum sem farveg til samstarfs. Þar kveður við nýjan tón í samskiptum þessara sveitarfélaga,“ segir í bókun bæjarstjórnar sem vill gera sérstaka athugasemd við að stjórnvaldið bæjarstjórn Hveragerðis velji að persónugera mál sem þetta í bæjarstjóra Ölfuss, enda byggi málið allt á formlegri samþykkt bæjarstjórnar.

Eðlilegt að sveitarfélögin deili áhyggjum
Bæjarstjórn Ölfuss telur orkuöryggi og aðgengi að bæði rafmagni og heitu vatni meðal mikilvægra verkefna allra sveitarfélaga.

„Í því samhengi er rétt að minna á að stór hluti þeirrar orku sem í dag er nýtt í Hveragerði kemur úr Ölfusi og því eðlilegt að sveitarfélögin deili áhyggjum og ábyrgð í þessum málum frekar en að vera með skeytasendingar í fjölmiðlum og gagnrýni á þegar þessara hagsmuna er gætt,“ segir ennfremur í bókun Ölfusinga.

Fyrri greinJólabókaupplestur í Bókakaffinu
Næsta greinSjöfn Dagmar ráðin hjúkrunarforstjóri á Kirkjuhvoli