Hvergerðingar fundu vel fyrir jarðskjálfta í Reykjafjalli á níunda tímanum í gærkvöldi. Skjálftinn var ekki stór, mældist 1,7 að stærð en upptök hans voru nálægt bæjarmörkunum.
Upptök skjálftans voru á 2,5 km dýpi í Reykjafjalli, tæpum 900 metrum norðaustan við Garðyrkjuskólann á Reykjum. Annar smáskjálfti varð norðar í fjallinu á sjötta tímanum í morgun. Hann hefur líklega ekki raskað morgunró Hvergerðinga en um er að ræða þekkt skjálftasvæði.

