Hvergerðingar fara varlega í gjaldskrárhækkanir

Mynd úr safni. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Gjaldskrár Hveragerðisbæjar munu hækka um 2,5% um áramótin en ekki 8% sem hefði verið vísitöluhækkun og gert var ráð fyrir í fyrri umræðu um fjárhagsáætlun bæjarins. Þetta var samþykkt samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Á fundinum voru lagðar fram gjaldskrár ársins 2024 fyrir fasteignaskatt, aukavatngjald, sorphirðu, dýraleyfisgjöld, leikskólagjöld, frístundagjöld, mötuneyti grunnskóla, matarbakka, sundlaugagjöld og bókasafnsgjöld.

Rétt er þó að geta þess að fasteignamat í Hveragerði hækkaði um 8% og því hækka fasteignagjöld sem því nemur.

Sýna samfélagslega ábyrgð
„Milli umræðna hafa fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar í samstarfi við starfsfólk bæjarins lagt mikla vinnu í að finna leiðir til að lækka álögur á íbúa. Líkt og á líðandi ári leggur meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar í Hveragerði áherslu á velferð fjölskyldunnar. Með það markmið fyrir sjónum sem og að sína samfélagslega ábyrgð var lagt kapp á að fara varlega í gjaldskrárhækkanir. Horfið frá því að gjaldskrárhækkanir nemi 8% vísitöluhækkun og hækki einungis um 2,5%,“ segir í bókun meirihlutans.

Útsvarsprósentan í Hveragerðisbæ fyrir árið 2024 verður 14,74%.

UPPFÆRT KL. 12:59

Fyrri grein„Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert“
Næsta greinLjósmyndar fugla á Suðurlandi og víðar