Hvergerðingar skoða sameiningarmöguleika

Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt að samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor fari fram skoðanakönnun meðal bæjarbúa þar sem spurt verði um afstöðu þeirra til sameiningar við önnur sveitarfélög.

Spurt verður um það hvort að viðkomandi vilji sameinast öðru sveitarfélagi og ef svarið er já verða gefnir 3-4 kostir um sameiningu sem kjósandinn getur valið um. Skoðanakönnunin verður ráðgefandi fyrir næstu sveitarstjórn sem vinna mun úr niðurstöðunni í samvinnu við önnur sveitarfélög.

Skipaður hefur verið starfshópur vegna þessa sem mun leggja tillögu að endanlegri framsetningu spurninganna fyrir næsta fund bæjarstjórnar. Hópinn skipa þeir Friðrik Sigurbjörnsson, Njörður Sigurðsson og Reynir Garðarsson.

Á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku lagði A-listinn fram tillögu um að kosið yrði um mögulega sameiningu við Sveitarfélagið Ölfus, en eftir umræður í bæjarstjórn var samþykkt samhljóða að gefa bæjarbúum kost á að tjá sig um fleiri sameiningarmöguleika en einungis við Sveitarfélagið Ölfus.

Öðrum sveitarfélögum í Árnessýslu verða kynnt þessi áform bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar og geta þau þá fylgt í kjölfarið með eigin skoðanakönnun sjái þau ástæðu til þess.