Hvergerðingar mótmæla lokun að Sogni

Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega ákvörðun um niðurlagningu Réttargeðdeildarinnar að Sogni og flutning starfseminnar á Klepp.

„Öll áform um sóknaráætlun Íslands 20/20 til eflingar atvinnulífs og lífsgæða í öllum landshlutum hljóma í besta falli hjákátlega í eyrum Sunnlendinga þegar yfir dynja einhliða ákvarðanir sem valda því að yfir 30 manns munu missa vinnuna í samfélagi sem telur 1900 manns,“ segir í bókun sem bæjarráð samþykkti samhljóða í morgun.

„Miðað við fólksfjölda samsvarar slík uppsögn því að 1800 manns myndu missa vinnunna í Reykjavíkurborg á einu bretti. Sunnlendingar gera þá kröfu að faglega sé staðið að ákvörðunum og að vinnubrögð séu vandaðri en hér virðist vera raunin. Árangur starfseminnar að Sogni hefur verið afar góður en þaðan hafa 44 vistmenn útskrifast á þeim 20 árum sem réttargeðdeildin hefur verið starfrækt. Enginn af þeim hefur brotið af sér eftir útskrift. Þetta hljóta að teljast bestu meðmæli sem völ er á með starfsemi af þessum toga.

Yfirmenn Landsspítala hafa farið mikinn í umræðunni undanfarnar vikur og ljóst er að einskis verður látið ófreistað til að draga til Reykjavíkur alla heilbrigðisþjónustu sem mögulegt er að soga af landsbyggðinni. Er það sú stefna sem við Íslendingar viljum búa við?,“ segir ennfremur í bókuninni.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar hvetur ráðherra Velferðarmála til að endurskoða umrædda ákvörðun. Í kjölfarið verið gerð fagleg úttekt óháðra aðila á kostum og göllum þess að réttargeðdeildin verði áfram staðsett að Sogni.

„Víðtækt samráð verði haft við þá aðila sem ákvörðunin snertir og málið verði unnið af þeirri fagmennsku sem lagt er upp með í Sóknaráætlun 20/20 en ekki eftir gerræðislegum geðþóttaákvörðunum einstakra starfsmanna ríkisins.“

Fyrri greinLjóð og sögur í Sunnlenska bókakaffinu
Næsta greinVefmyndavél á Þingvöllum