Hveragerði lagði meistarana

Lið Hveragerðis lagði ríkjandi meistara Norðurþings, 74-61, í Útsvarsþætti kvöldsins í Ríkissjónvarpinu.

Hveragerði hafði forystu frá upphafi og vann sér fljótlega inn nokkuð þægilegt forskot. María Kristjánsdóttir fór á kostum í leiklistarspurningunum og hermdi m.a. meistaralega eftir Villa spætu.

Auk Maríu, sem er félagsmálastjóri Árnesþings, skipa Úlfur Óskarsson, skógfræðingur og kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands og Gettu betur stjarnan Ólafur Hafstein Pjetursson, nemi í byggingaverkfræði lið Hveragerðis í vetur.

Sigurinn gefur Hvergerðingum væntanlega byr undir báða vængi en liðið hefur sett markið hátt og stundað strangar æfingar á síðustu vikum.