„Hver dagur mikil áskorun“

Leikskólinn Jötunheimar á Selfoss, þar sem tvær deildir af sex eru lokaðar þessa dagana. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Smit hafa komið upp í nokkrum leikskólum í Árborg undanfarna daga, sem hafa meðal annars leitt til skerðingar á skólastarfinu.

Að sögn Þorsteins Hjartarsonar, sviðsstjóra fjölskyldusviðs Árborgar, hefur þurft að loka nokkrum deildum á að minnsta kosti fjórum af sex leikskólum sveitarfélagsins á síðustu dögum, vegna smita bæði hjá starfsfólki og leikskólabörnum.

„Leikskólastjórar og annað starfsfólk leikskólanna hafa verið í góðu samstarfi við foreldra og almennt hefur starfið gengið nokkuð vel í krefjandi aðstæðum. Allir leitast við að hafa eins litla blöndun á milli deilda og hægt er og vinna eftir þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi,“ sagði Þorsteinn ennfremur og bætti við að ástandið hafi haft mikil áhrif á dagleg samskipti enda hafi álagið verið mikið.

„Líf flestra litast af COVID-ástandinu og margir eðlilega með áhyggjur af börnunum og fjölskyldum sínum. Það getur verið erfitt að halda úti skipulögðu leikskólastarfi og hver dagur er því mikil áskorun. Allir starfsmenn reyna að gera sitt besta og foreldrar sýna þessu almennt mikinn skilning,“ bætti Þorsteinn við.

Í dag eru 209 manns í einangrun í Árborg og 241 í sóttkví, flestir á Selfossi þar sem 180 eru í einangrun og 219 í sóttkví, að því er fram kemur í tölum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Fyrri greinLaugalandsskóla lokað vegna smits
Næsta greinTvö störf presta auglýst