Hvellurinn kostaði 90 milljónir króna

Túngatan á Eyrarbakka - eftir mokstur. Ljósmynd/Elín Birna Bjarnfinnsdóttir

Kostnaður Sveitarfélagsins Árborgar við mokstur og hreinsun vegna fannfergisins í desember og fram í janúar var hátt í 90 milljónir króna.

Að sögn Atla Marels Vokes, sviðsstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs, voru að jafnaði um 30 tæki að störfum í sveitarfélaginu og var yfirleitt farið af stað um fjögurleytið á nóttunni. Þegar mest var þá voru um 50 tæki að störfum.

„Það eru miklar áskoranir þegar svona mikið fannfergi kemur á mjög skömmum tíma og það þurfti að kalla til auka vélar og tæki til að koma að, þar sem þær vélar sem fyrir eru réðu ekki við umfangið,“ sagði Atli í samtali við sunnlenska.is.

Sprengir allar áætlanir
Atli segir að hvellur sem þessi sprengi allar fjárhagsáætlanir enda sé ekki mögulegt að binda of mikið fjármagn í óvissuþætti sem þessum.

„Snjómokstur og hreinsun er allsstaðar áætlað í algjöru lágmarki, enda ekki verið að binda fjármagn í eitthvað sem er algerlega óráðið. Það gerir það að verkum að þegar svona hvellir koma þá sprengir það allar áætlanir. Áætlun fyrir árið 2022 var 36 milljónir króna en árið endaði í sirka 160 milljónum, þar sem fyrstu mánuðir ársins og svo síðustu vikurnar voru mjög snjóþungar,“ segir Atli en í fjárhagsáætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir 48 milljónum króna í vetrarþjónustu.

Snjóhreinsun á Tryggvatorgi aðfaranótt 29. desember. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Krefjandi aðstæður við ströndina
Verkefninu fylgdu ýmsar áskoranir og segir Atli mikilvægast að tryggja öryggi starfsmanna í svona veðurofsa og því var ekki verið að vinna við ruðning þegar veðrið er sem verst, það gagnast engum. Starfsfólkið hafi hins vegar staðið sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður.

„Fannfergið á Eyrarbakka og Stokkseyri var svo mikið að elstu menn muna ekki annað eins og aðstæður voru gríðarlega krefjandi. Það er lykilatriði á svona tímum að fólk sýni þolinmæði og skilning á aðstæðum og flestir íbúar tóku því þannig. Einnig voru aðstæður krefjandi í dreifbýli Árborgar en heilt yfir gekk vetrarþjónustan vel. Það má samt alltaf gera betur og það er gott að fá ábendingar um slíkt,“ segir Atli ennfremur og bætir við að þar sé hægt að notast við ábendingagátt á heimasíðu sveitarfélagsins, frekar en á samfélagsmiðla sem ekki eru vaktaðir af starfsmönnum Árborgar.

Gríðarmiklir snjóruðningar eftir gatnamokstur í Sandvíkurhreppnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinHellisheiðin og Þrengslin lokuð
Næsta greinAftur tapar Hamar