Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar á Engi

Hjónin Sigrún Reynisdóttir og Ingólfur Guðnason, á garðyrkjustöðinni Engi í Laugarási, fengu hvatningarverðlaun garðyrkjunnar í dag.

Ingólfur tók við verðlaununum úr hendi Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, í opnu húsi Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi.

Sigrún og Ingólfur stofnuðu stöðina árið 1985 og ræktuðu fyrst tómata og útimatjurtir. Þau hafa verið brautryðjendur í ræktun ferskra kryddjurta og hafa stundað lífræna ræktun síðan 1990.

Skrúðgarðarnir í Laugardal voru valdir verknámsstaður ársins og tók Guðný Aldís Olgeirsdóttir, skrúðgarðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg við verðlaununum.

Heiðursverðlaun garðyrkjunnar hlaut Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt.