Hvalreki í Skötubótinni vekur athygli

Sandreyður í Skötubót. sunnlenska.is/Alfreð Elías Jóhannsson

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Skötubótina við Þorlákshöfn í dag þar sem stærðarinnar skíðishval rak að landi í nótt.

Hvalurinn fannst í morgun og telja fróðir menn að þarna sé sandreyður á ferðinni. Dýrið er sennilega nýdautt þar sem enn blæðir úr skolti þess. Það er um 14 metra langt en fullvaxin sandreyður verður 14-16 metra löng og vegur tuttugu tonn.

Fólk á öllum aldri hefur lagt leið sína í Skötubótina í dag enda er hræið mjög aðgengilegt, en um 10-15 mínútna gangur er að því frá golfvellinum.

Dýrið hefur vakið mikla athygli ungra sem aldna og hafa gárungarnir, sem eru fjölmargir í Þorlákshöfn, velt fyrir sér hvort þarna sé kominn óvæntur dagskrárliður í hryllingshátíðinni Þollóween, sem stendur nú yfir í Þorlákshöfn.

Hræið verður væntanlega rannsakað af þar til bærum aðilum en það er síðan ákvörðun Umhverfisstofnunar hvernig staðið verður að förgun þess.

sunnlenska.is/Alfreð Elías Jóhannsson
sunnlenska.is/Alfreð Elías Jóhannsson
sunnlenska.is/Alfreð Elías Jóhannsson
Fyrri greinJólasleðinn fundinn
Næsta grein„Ó, veður“ Hrafnhildar Ingu í Gallerí Fold