Hvað geta viðbragðsaðilar í borginni lært af dreifbýlinu?

Á vettvangi rútuslyssins í Eldhrauni í desember 2017. Ljósmynd/BÁ

Hvað geta slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn á höfuðborgarsvæðinu lært af aðstæðum sem koma þegar stórslys verður í dreifbýlinu og hvað geta þeir lært af aðstæðum sem skapast þegar eldur kemur upp í þéttri borgarbyggð?

Þetta er meðal efnis sem verður til umræðu á námstefnu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem hefst á Icelandair Hótel Reykjavík Natura kl. 8:30 í fyrramálið, föstudaginn 18. október.

Auðbjörg og Pétur meðal fyrirlesara
Með auknum ferðamannastraumi til landsins hefur slysum fjölgað afar mikið. Meðal alvarlegustu slysa undanfarinna ára var þegar rúta valt að vetrarlagi við Kirkjubæjarklaustur með erlenda ferðamenn en slysið kostaði mannslíf. Meðal fyrirlesara á námstefnunni verður Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður með meiru,  sem ætlar að segja frá þeim aðstæðum sem sköpuðust við þessar aðstæður. Hún kom á vettvang og hefur frá mörgu að segja varðandi aðgengi að mannskap og nauðsynlegum búnaði þegar stórslys sem þessi verða. Auðbjörg hlaut fálkaorðuna í júní sem viðurkenningu fyrir störf sín í þágu heilbrigðis- og öryggismála.

Meðal annarra fyrirlesara eru Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og Reynir Guðjónsson frá Selfossi en hann er öryggisstjóri OR og hefur langa reynslu af starfi á því sviði öryggismála.

Dagskráin afar fjölbreytt
Jón Pétursson námsstefnustjóri segir að stórslys í dreifbýli gerist nú æ oftar. Það sé mikilvægt fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn á höfuðborgarsvæðinu að fá innsýn í þær aðstæður sem skapist í dreifbýlinu þegar stórslys ber að höndum þar sem vegalengdir eru miklar og langt í aðstoð.

Jón segir að dagskráinn sé afar fjölbreytt. Hann geri ráð fyrir mikill og góðri þátttöku viðbragðsaðila. Hann segir að það sé erfitt að draga eitt atriði frekar en annað út úr dagskránni, en vekur þó athygli á fyrirlestri Dave Green, fagstjóra frá Landssambandi breskra slökkviliðsmanna, um þær aðstæður sem sköpuðust í stórhýsabrunanum í London 2017. Hann segir að íslenskir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn geti margt lært af þeim aðstæðum þegar eldur er laus í þéttri borgarbyggð. Hann nefnir einnig sænskan fyrirlesara, Lars Axelsson, sem gengur undir nafninu Swedish Firenerd en hann hefur verið virkur í fræðslustarfi víða um heim og  í gegnum Youtube.

Auk fyrirlestra mun slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu muni kynna nýja bíla og auk þess sýna tæknibúnað sem gerir slökkviliðsmönnum mögulegt að skera sig í gegnum veggi í brennandi húsum.

Forseti Íslands mun ávarpa ráðstefnuna kl. 8:30 , en sýning á bílunum og nýjum tæknibúnaði fer fram kl. 13:00.

Fyrri greinKK og Gaukur á Hendur í höfn
Næsta greinAkureyrarþema í bikarnum