„Hvað er að frétta af Fidel?“

„Hvenær komst á pólitískt samstarf á millum Arnalds og Castro? Hvað er að frétta af Fidel?,“ spyr Kjartan Ólason, fulltrúi Samfylkingarinnar í Lista- og menningarnefnd Árborgar.

Fyrirhugað samstarf listamannanna Guðjóns Bjarnasonar á Stokkseyri og George Schroder í San Antonio í Bandaríkjunum var rætt á síðasta fundi nefndarinnar.

Schroder hyggst færa Árborg útilistaverk að gjöf og Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, hefur fengið bréf frá borgarstjóra San Antonio um menningarsamskipti borgarinnar í Texas og Árborgar.

Lista- og menningarnefnd lýsti ánægju sinni með fyrirhugað samstarf á síðasta fundi sínum en Kjartan Ólason sat hjá við afgreiðslu málsins og lét bóka eftirfarandi: „Hvenær komst á pólitískt samstarf á millum Arnalds og Castro? Hvað er að frétta af Fidel?“ Fulltrúar meirihlutans svöruðu ekki bókuninni á fundinum.

„Þetta var nú bara galsaháttur í mér. Við fórum á Menningarnótt á síðasta kjörtímabili og þá kvað við mikið ramakvein úr ákveðnu horni, sem nú er komið til valda í bænum. Þeim fannst skjóta skökku við að við værum að fara til höfuðborgarinnar en nú virðist sveitarfélagið vera komið í samstarf við borg í vesturheimi og það fyrir Íslands hönd,“ segir Kjartan Ólason í samtali við sunnlenska.is. „Það sem kemur ekki fram í fundargerðinni er að borgarstjórinn í San Antonio heitir Castro og þess vegna spurði ég af stráksskap mínum hvort hann hefði eitthvað að frétta af Fidel,“ sagði Kjartan léttur í lund.