Húsnæðisskortur hamlar fjölgun íbúa

Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri í Skaftárhreppi, kallar eftir því að byggingaverktakar byggi leiguíbúðir á Kirkjubæjarklaustri svo hægt sé að fjölga íbúum á svæðinu.

Eygló segir að atvinnuástandið sé gott og flestir aðilar kalli eftir fleira starfsfólki til langframa.

„Þetta er ákveðið púsluspil,“ segir Eygló en erfitt er að fá fólk til starfa á svæðinu sökum húsnæðisskorts. „Ferðaþjónustan er að kalla eftir fólki, verslunin, bankinn, sveitarfélagið og fleiri,“ segir Eygló. Þeir sem séu á staðnum hafi næga vinnu.

Eygló vonast til þess að byggingarfélög sjái sér hag í að reisa húsnæði til útleigu á staðnum til að bregðast við ástandinu. Leiguverð sé ágætt og sem dæmi nefnir hún að Búmenn, húsnæðissamvinnufélagið, eigi þrjár íbúðir á Klaustri.

„En nú vantar okkur fleiri slíkar íbúðir, og sem allra fyrst.“

Fyrri greinMeiddist á fæti í Reykjadal
Næsta greinSafna fimm tonnum af melgresisfræi