Hurðarbak afurðahæsta kúabúið

Fanney og Reynir í fjósinu á Hurðarbaki. Ljósmynd/Bændablaðið - Hörður Kristjánsson

Hurðarbaksbúið ehf er afurðahæsta kúabú landsins árið 2019 en þar mjólkaði hver kýr að meðaltali 8.678 kg yfir árið.

Það eru þau Reynir Þór Jónsson og Fanney Ólafsdóttir sem reka búið á Hurðarbaki í Flóahreppi og eru með 54,1 árskýr.

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Bændablaðsins en þar kemur einnig fram að fyrir leikmenn þyki undarlegt að tala um kílógrömm af mjólk en ekki lítra. Að einhverju leyti á þetta sér gamlar skýringar í innvigtun á mjólk, en líka þeirri staðreynd að einn lítri af mjólk er örlítið eðlisþyngri en einn lítri af vatni.

Mikið jafnræði var meðal efstu kúabúanna en tvö önnur sunnlensk bú komast á topp tíu listann frá Ráðgjafarþjónustu landbúnaðarins að þessu sinni.

Kirkjulækur 2 í Fljótshlíð er í 7. sæti með 8.270 kg. Að Kirkjulæk 2 eru þau Eggert Pálsson, Jóna Kristín Guðmundsdóttir, Páll Eggertsson og Kristín Jóhannsdóttir með 59,2 árskýr.

Í níunda sæti var Miðdalskot í Laugardal. Þar eru þau Hermann Geir Karlsson og Sigrún Björg Kristinsdóttir með 43,3 árskýr sem skiluðu að meðaltali 8.223 kg á síðasta ári.

Frétt Bændablaðsins

Fyrri greinNorrænn heilsumatseðill slær í gegn á Selfossi
Næsta greinKennsl borin á höfuðkúpu með DNA rannsókn