Hundur át gæs

Lögreglan í Vík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi hefur til meðferðar mál huskyhunds sem tók sig til og át gæs sem varð á vegi hans í Vík í Mýrdal í síðustu viku.

Sagt er frá málinu í dagbók lögreglunnar. Málið er til meðferðar hjá lögreglu og sveitarfélagi en sami hundur er sagður hafa drepið kött sem hann náði í þegar hann sleit sig frá eiganda sínum fyrr á þessu ári.

Ekið á kött, hross og lamb í vikunni
Fjögur önnur mál tengd dýrum komu inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku.

Á Hellu var ekið á svartan og hvítan kött sem drapst við það. Hann var ómerktur og var líklega um villikött að ræða.

Á Þykkvabæjarvegi var ekið á hross. Þar varð mikið tjón á bílnum en ekki vitað um ástand hrossins þar sem það hljóp út í myrkrið eftir áreksturinn.

Síðastliðinn laugardag var ekið á lamb á Meðallandsvegi. Umtalsvert tjón var á ökutækinu og þarf ekki að fjölyrða um ástand lambsins.

Þá hljóp laus hundur í veg fyrir bifreið á Suðurlandsvegi við Laugardæli þannig að ökumaður hennar þurfti aðnauðhemla til að koma í veg fyrir að lenda á dýrinu. Hundurinn hljóp af vettvangi og var eigandi hans hvergi sjáanlegur.

Fyrri greinTekinn fyrir ölvunarakstur í tólfta sinn
Næsta greinSöngur og sagnir á Suðurlandi