Hundruðir grunnskólanema heimsóttu ML

Vel á þriðja hundrað grunnskólanema af Suðurlandi heimsótti Menntaskólann að Laugarvatni í gær en þá var hinn árlegi ML-dagur.

Heimsóknin hófst á hádegisverði í mötuneyti skólans en síðan var haldin íþróttakeppni milli grunnskólanna þar sem keppt var í körfubolta og skák. Sigurvegarar í skákinni urðu Íris Stefánsdóttir, Grunnskóla Bláskógabyggðar og Bjarki Ágústsson, Víkurskóla. Flúðaskóli átti góðan dag í körfunni, en bæði liðin þaðan báru sigur úr býtum.

Eftir íþróttakeppnina fóru hópar um húsnæði skólans undir leiðsögn nemenda – skoðuðu heimavistirnar, sigu í kaðli, komu við hjá kennurum vítt og breitt um skólahúsið og hlustuðu á kórinn á opinni æfingu. Að því loknu var boðið til kvöldverðar og eftir hann fylgdust grunnskólanemarnir með söngkeppni ML, Blítt og létt, í íþróttahúsinu á Laugarvatni.

Páll M. Skúlason, aðstoðarskólameistari, dregur það í efa að nokkur framhaldsskóli haldi úti annarri eins kynningu á starfi sínu. “Fyrir utan ML-daginn eru allir grunnskólar á Suðurlandi heimsóttir á vorönn, auk þess sem foreldrar eru boðnir velkomnir á staðinn til að kynna sér skólann og aðstæður allar,” segir Páll.