Hundraðasti rampurinn vígður við Sjóminjasafnið

Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.

Hundraðasti rampurinn á landsbyggðinni, í átaksverkefninu Römpum upp Ísland, verður tekinn í notkun við Sjóminjasafnið á Eyrarbakka þriðjudaginn 9. ágúst klukkan 14:00.

Öllum er boðið á viðburðinn en sérstakir gestir verða leikskólabörn frá Strandheimum á Eyrarbakka og Stokkseyri og eldri borgarar. Innviðaráðherra og bæjarstjóri Árborgar verða með stuttar ræður áður en Aron Freyr Jónsson mun vígja rampinn.

Verkefnið Römpum upp Ísland hófst formlega með vígslu á fyrsta rampinum þann 23. maí síðastliðinn í Hveragerði. Tilgangur þess er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, stofnunum, verslun og veitingahúsum á Íslandi. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins. Stofnfé sjóðsins eru framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana sem vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra um allt land.

Léttar veitingar verða í boði og eru allir sérstaklega hvattir til að mæta og fagna þessum áfanga og tímamótum í verkefninu, Römpum upp Ísland við Sjóminjasafnið á Eyrarbakka þriðjudaginn 9. ágúst kl. 14:00.

Fyrri greinMár með þeim fyrstu til að stíga á svið
Næsta greinSóley Embla er 11 þúsundasti íbúinn