Hundrað milljóna miði á Selfossi

Einn var með allar tölur réttar í Víkingalottóinu í kvöld og fær í sinn hlut tæpar 100 milljónir króna. Miðinn var seldur á Selfossi.

Potturinn var 98,7 milljónir króna en vinningsmiðinn var keyptur í Snælandi á Selfossi og er 10 raða sjálfvalsmiði án Jókers sem kostaði 500 krónur.

Þetta er þriðji stærsti vinningur sem Íslendingur hefur unnið í leikjum Íslenskrar getspár.

Það er mikið um stóra vinninga hjá Íslenskri getspá þessa dagana því fyrsti vinningur í Lottóinu er fjórfaldur næstkomandi laugardag og stefnir í 23 milljónir, að því er segir í tilkynningu.