Hundrað manns leita í Fljótshlíðinni

Ríflega 100 manns eru nú við leit í Fljótshlíð en hún hefur enn engan árangur borið. Í dag er áætlað að fínkemba svæðið á milli sumarbústaðarins þar sem konurnar dvöldu og Bleiksárgljúfurs, þar sem önnur þeirra fannst látin á þriðjudag.

Leitað var fram til klukkan 03:00 í nótt og fyrstu hópar voru svo komnir út um klukkan 08:00 í morgun.

Svæðið í kringum Markarfljót verður skoðað í dag og hestaleitarsveitir leita Markarfljótsaurana.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að að ýmsu þurfi að huga þegar aðgerðir sem þessi dragast á langinn, mannskapurinn þarf bæði hvíld og orku. Hvítasunnumenn hafa lánað aðstöðu sína í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð og ýmsir aðilar hafa tekið þátt í að fæða leitarfólkið, þ.m.t. konur af svæðinu, Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík, verslunin Kjarval á Hvolsvelli og Sláturfélagi Suðurlands.

Fyrri greinJón Hjalti fékk 10,0 fyrir lokaverkefnið
Næsta greinFullt í nám í grunndeild ferða- og matvælagreina