Hundrað manns í kröfugöngu í roki og rigningu

Þrátt fyrir rigningu og rok tóku tæplega 100 manns þátt í kröfugöngu dagsins á Selfossi en gengið var frá húsnæði stéttarfélaganna að Hótel Selfossi þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá og kaffiveitingar í boði stéttarfélaganna.

Um 300 manns mættu á Hótel Selfoss þar sem dagskráin fór fram. Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélag Íslands og Freydís Ösp Leifsdóttir nemi voru ræðumenn dagsins Karitas Harpa söng nokkur lög. Leikhópur Menntaskólans á Laugarvatni sýndi atriði úr Konungi ljónanna.

Kristín gagnrýndi harðlega einkavæðingu stjórnvalda m.a. í heilbrigðisgeiranum. Þar sem markmiðin snúast um að græða á fólki. Fram kom hjá henni að græðgi tröllríður öllu þar sem greiddir eru bónusar í milljörðum. Hún fjallaði einnig um alvarlega stöðu á íbúðarmarkaði þar sem ungt fólk á enga möguleika á að geta keypt húsnæði.

Freydís Ösp ræddi um ábyrgð Íslendinga í innkaupum. Hún gagnrýndi að ekki er hægt að fá almennilegar upplýsingar um uppruna vörunnar. Íslendingar hugsa ekki um hvaðan varan kemur og hvernig er staðið að kjörum þeirra sem búa hana til. Hún tók dæmi um erlendar fataverksmiðjur þar sem illa er farið með verkafólk. Íslenskir grænmetisbændur eru dæmi um góða fyrirmynd þar þeir skrá uppruna vörunnar. Hún gerir kröfu um tryggingu fyrir því að starfsumhverfi þeirra sem koma að gerð vörunnar sé ekki skaðlegt og að fólkið sem framleiðir vöruna hafi fengið mannsæmandi laun fyrir. Freydís benti á að kjólinn hennar væri merktur á þann hátt að hægt er að nálgast þessar fyrrgreindu upplýsingar um ábyrga stjórnun gagnvart launafólki.