Hundrað manns á haustfundi í Þingborg

Um eitt hundrað manns mættu á fyrsta haustfund Landssambands kúabænda sem haldinn var í Þingborg í Flóa í gærkvöldi. Á fundinum var meðal annars rædd gríðarleg aukning á sölu fituríkari mjólkurafurða.

Framsögumenn voru Sigurður Loftsson, formaður LK, Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK og Einar Sigurðsson, forstjóri MS. Á fundinum var m.a. farið yfir hin óvenjulegu tækifæri sem mjólkurframleiðslan stendur frammi fyrir í ljósi gríðarlegrar söluaukningar, sérstaklega á fituríkari afurðum. Þá var farið yfir stöðu nautakjötsframleiðslunnar og endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna og kynnt staða verkefnis LK og SAM um Fyrirmyndarbú – leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti.

Í máli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar kom fram að brýnt væri að skapa umgjörð um aukningu matvælaframleiðslunnar nú þegar og nýta þau tækifæri sem greinin stæði frammi fyrir. Einnig væri afar mikilvægt að auka framleiðni í landbúnaði til að bæta lífskjör þeirra sem við hann störfuðu. Þá kom fram að ráðherra hefur ákveðið að láta gera áhættumat á innflutningi holdanautasæðis og fósturvísa, annars vegar inn á bú og hins vegar í gegnum einangrunarstöð, einnig að farin er af stað vinna í tengslum við bókun með breytingum á mjólkursamningi, sem nýtist til stefnumörkunar fyrir mjólkurframleiðsluna til framtíðar.

Í umræðum kom fram að spennandi tímar séu framundan fyrir bændur og að þörf væri á umræðum og stefnumörkun um stöðu kvótakerfisins og tilhögun á stuðningi við greinina. Mikil þörf væri á aukinni ráðgjöf um fóðrun og hvernig lækka mætti aldur kvígna við fyrsta burð. Þá var komið inn á tækifæri fyrir nýliða í mjólkurframleiðslu væru ef til vill meiri nú en oftast áður.

Frá þessu er greint á naut.is

Fyrri greinVel tekið í áform um smávirkjun í Bláfelli
Næsta greinHamar A og Hrunamenn hraðmótsmeistarar