Hundleiðinlegt að banna snjallsímanotkun á vinnutíma

Dvalarheimilið Ás. Ljósmynd/Dvalarheimilið Ás

Farsímanotkun starfsmanna á dvalarheimilum Grundar virðist vera orðin að vandamáli ef marka má pistil sem Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, ritar á facebooksíðu Áss í Hveragerði

Gísli Páll segir að ofnotkun þessara tækja sé „bölvað böl“.

„Hjá of mörgum starfsmönnum er þessi símanotkun farin að skerða vinnuframlag þeirra og skemma fyrir andrúmsloftinu á vinnustaðnum. Ef einhver starfsmaður eyðir óhóflegum tíma í símanum, þá lendir aukin vinna á hinum sem eru ekki eins uppteknir af snjalltækinu sínu. Þá fáum við talsvert af kvörtunum frá aðstandendum að starfsmenn séu uppteknir í símanum sínum þegar þeir ættu að vera að sinna heimilisfólkinu,“ segir Gísli Páll.

Framkvæmdastjórnin leitar nú leiða til að leysa þessi mál og segir Gísli Páll að hans mat sé að tvennt komi til greina. Að takmarka og stýra notkuninni á þann veg að sem minnst truflun hljótist af og hin leiðin er algjört snjallsímabann.

„Vonandi náum við að fara fyrri leiðina, okkar allra vegna. Það er hundleiðinlegt að þurfa að banna alfarið snjallsímanotkun í vinnutímanum, það er svona það allra síðasta sem við komum til með að grípa til. Í einstaka tilvikum getur það reynst starfsmanni nauðsynlegt að svara í símann sinn. Í langflestum tilfellum er vandamálið við ofnotkun tækjanna ekki símtölin, það er þessi takmarkalausa, og oft á tíðum algjörlega tilgangslausa, skoðun á heimasíðum og ónauðsynleg samskipti á samfélagsmiðlum,“ segir Gísli Páll ennfremur og stingur uppá að hægt væri að bjóða upp á aðstoð við að hætta fyrir þá sem eru langt leiddir.

„Þeir eru fleiri en ykkur grunar. Og líklegast mun enginn sem les þennan pistil taka þetta til sín, þannig er það nú bara,“ segir Gísli Páll að lokum og hvetur starfsfólk sitt til að vera í vinnunni, ekki símanum.

 

Fyrri greinStúlkan fannst heil á húfi
Næsta greinFjórði Evrópumeistaratitill Þóris