Hundleiðinlegt á Heiðinni seinni partinn

Spáð er suðaustan stormi síðdegis á Suður- og Vesturlandi. Slæmt ferðaveður verður undir Eyjaföllum og á Hellisheiði er von á bleytuhríð og varasömum akstursskilyrðum síðdegis.

Í nýjustu spám er lítið eitt dregið úr mestu veðurhæð suðvestanlands, engu að síður er spáð stormi með slagveðursrigningu og hviðum, allt að 35 m/s undir Eyjafjöllum.

Yfir Hellisheiði fylgir bleytuhríð og varasöm akstursskilyrði síðdegis.

Upp úr klukkan 15 mun hvessa nokkuð snögglega suðvestanlands og má búast við að mesta veðurhæðin standi yfir í allt að fjórar klukkustundir.

Kl. 14:24 var hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi. Flughált á Rangárvallavegi og Fljótshlíðarvegi. Hálka er einnig á Suðausturlandi og flughálka milli Hafnar og Jökulárlóns á Breiðamerkursandi.

Fyrri greinBanaslys á Suðurlandsvegi
Næsta grein82% fjölgun ferðamanna í Fjaðrárgljúfri