Hundi bjargað úr brennandi parhúsi

Slökkviliðseiningar Brunavarna Árnessýslu frá Reykholti og Selfossi voru boðaðar út síðdegis í gær vegna elds í parhúsi við Borgarbraut í Grímsnesi.

Þrjár manneskjur höfðu verið inni í húsinu er eldurinn kom upp en fólkið komst allt út af sjálfsdáðum. Talsverður reykur var í húsinu en eldurinn náði þó ekki að dreifa sér um bygginguna.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn eftir að reykkafarar komu á staðinn og gekk starf slökkviliðs á vettvangi vel. Hundur hafði lokast inni í íbúðinni og tókst reykköfurunum að ná honum lifandi út.

Eldurinn virðist hafa kviknað í einu af svefnherbergjum hússins en ekki er ljóst á þessari stundu út frá hverju kviknaði.

Allir þrír sem í húsinu voru er eldurinn kom upp voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til aðhlynningar og frekari skoðunar.