Hundaskráning fer hægt af stað

Tuttugu hundar hafa verið skráðir í Flóahreppi eftir að skráning hunda hófst þar í júní sl.

Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri, sagði í samtali við sunnlenska.is að skráningin fari rólega af stað og ljóst sé að fjöldi hunda sé enn óskráður. „Snati og Kátur hafa enn ekki verið skráðir,“ sagði Margrét létt í bragði og vonast til að hundaeigendur í hreppnum taki við sér.

Nýjar reglur um hundahald í Flóahreppi voru staðfestar af Umhverfisráðuneytinu í sumarbyrjun en lausaganga hunda á almannafæri er nú bönnuð í hreppnum. Hundar á lögbýlum mega ganga lausir á landareign eigenda sinna.

Þau skilyrði sem hundaeigendur þurfa að uppfylla er að fá örmerkingu á hundinn hjá dýralækni og ábyrgðartryggingu. Þá þarf að skrá hundinn á skrifstofu Flóahrepps en skráningargjaldið er 1.500 krónur og í staðinn fær hundurinn plötu sem skal vera um háls hans.