Hundar hlaupi í Björkurstykki

Á bæjarstjórnarfundi í gær lagði Helgi S. Haraldsson, bæjarfulltrúi B-listans, fram tillögu um að gert verði afgirt hundasleppisvæði í Björkurstykki, landi í eigu Árborgar við Selfoss.

Í Árborg eru í gildi reglur um bann við lausagöngu hunda. Helgi segir nauðsynlegt að einhvers staðar sé boðið upp á afgirt svæði þar sem hundaeigendur geta sleppt hundum sínum lausum til að viðra þá og leyfa þeim að hlaupa lausum. Einfalt sé að girða af Björkurstykkið með einfaldri girðingu sem síðan er hægt að taka upp og færa þegar nýta þarf landið í annað í framtíðinni.

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa málinu til framkvæmda- og veitustjórnar til frekari skoðunar.