Hundar þefuðu uppi dóp

Tveir karlmenn um þrítugt voru teknir með smáræði af fíkniefnum á tjaldstæðinu á Flúðum í nótt.

Mennirnir höfðu bæði kannabisefni og hvítt duft, sem grunur leikur á að sé amfetamín, í fórum sínum. Um neysluskammta var að ræða og telur lögreglan að mennirnir hafi ætlað efnin til eigin neyslu.

Það voru fíkniefnahundar tollgæslunnar sem þefuðu efnin uppi, en að sögn lögreglu fara þeir nú um tjaldsvæði og samkomustaði á suðurlandi í sameiginlegu fíknefnaeftirliti lögreglunnar og tollgæslunnar.

Talsverð ölvun var í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í nótt en allt fór skikkanlega fram.

Talið er að um 1.700 manns séu á Flúðum, um 1.000 í Úthlíð og svo er töluvert af fjölskyldufólki í Þjórsárdal, Árnesi og á Laugarvatni. Fremur fátt hefur verið á Færeyskum dögum á Stokkseyri það sem af er.