Hundaeftirlitsmaður ráðinn á Hvolsvelli

Rangárþing eystra mun á næstunni ráða eftirlitsmann í hlutastarf til að fylgja eftir reglum sveitarfélagsins um hunda- og kattahald.

Í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins er greint frá því að alltof algengt sé að gæludýraeigendur framfylgi ekki reglum um hunda- og kattahald. Yfirvöld biðja þá sem ekki hafa kynnt sér reglurnar að gera það, svo ekki komi til frekari aðgerða.

Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um hundahald í dreifbýli í Rangárþingi eystra en að gefnu tilefni eru hundaeigendur í dreifbýlinu hvattir til að hafa eftirlit með sínum hundum.

Fjórir hundar hafa verið aflífaðir í Rangárþingi í haust eftir að hafa ráðist á fé.

Fyrri greinUmhverfisþing á Selfossi á morgun
Næsta greinNaumt tap Þórs í Vesturbænum