Hulduljósið fundið

Björgunarfélag Árborgar hefur oftar en einu sinni verið kallað út vegna óútskýrðs ljósglampa í Ingólfsfjalli. Ljósgjafinn reyndist vera DVD-hulstur sem fannst sl. laugardag.

Laust fyrir hádegi á laugardag var ritstjóri sunnlenska.is staddur í Hrísmýri á Selfossi þegar hann sá mjög bjartan, flöktandi ljósglampa vestan við Þórustaðanámu. Staðsetningin var sú sama og gefin var upp á dögunum þegar sjónarvottar sem höfðu samband við Neyðarlínuna og töldu að göngufólk væri í vanda á fjallinu. (Frétt sunnlenska.is 19. ágúst). Það var ekki í fyrsta sinn sem björgunarsveitir hafa verið kallaðar til leitar á þessu svæði vegna dularfullra ljósmerkja.

Glampinn var festur á mynd og því nokkuð einfalt að ganga beint að honum, í rúmlega 250 m hæð í brattri skriðu.

Hluturinn sem endurkastaði sólarljósinu svo kröftuglega reyndist vera DVD-hulstur en í skriðunni var einnig fjöldi annarra hluta, silfurlitaðar áldósir, fótbolti og sjóorrustuspil, svo eitthvað sé nefnt.

Ef einhver saknar þessara hluta getur sá hinn sami haft samband á netfrett@sunnlenska.is. Annars væri vel þegið að fá diskinn sem fylgdi hulstrinu en kvikmyndin Sorority Row ku vera hörku spennutryllir.

ingolfsfjall2_270811gk_411353234.jpg
Fengurinn úr fjallferðinni sunnlenska.is/Guðmundur Karl

ingolfsfjall270811gk_110936993.jpg
Ekki besti staðurinn til þess að gleyma boltanum sínum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl