Huldufólk í vanda

Björgunarfélag Árborgar fékk tilkynningu frá Neyðarlínunni á ellefta tímanum í morgun um göngumann í sjálfheldu við Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli.

Samkvæmt upplýsingum frá Björgunarfélaginu bárust tvær tilkynningar frá Selfossi um blikkandi ljós í fjallinu og töldu þeir sem það sáu að þar gæti verið göngumaður í vanda.

Björgunarfélagið sendi mannskap á vettvang sem gekk meðfram fjallinu vestan við námuna en talið var líklegt að ljósmerkið bærist frá einhverjum gljáandi hlut sem lægi í fjallinu, frekar en að þar væri fólk á ferð.

Guðjón Þór Emilsson, hjá BFÁ, sagði í samtali við sunnlenska.is að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem tilkynning bærist um blikkandi ljós frá fjallinu án þess að ljósgjafinn hefði fundist.