Hugsanlega aðeins jarðhitavatn

Mikill órói var fram eftir morgni undir Mýrdalsjökli en síðan hefur heldur dregið úr óróa og jarðskjálftavirkni minnkað. Lögreglan er við lokanirnar á þjóðvegi 1 ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra.

„Þetta er alla vega ekki stórgos, það Kötlugos sem menn hafa verið að bíða eftir,“ segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, í samtali við RÚV. „Ef þetta er eldgos er þetta lítill atburður og hugsanlega aðeins jarðhitavatn.“

Freysteinn bendir á að sigsvæði sem sáust í flugi yfir svæðið séu þekkt fyrir að safna í sig vatni. Nú líti þetta út eins og hlaupvatn komi undan kötlunum þar.

Þyrla flaug yfir svæðið í morgun. Þar sáust þrjú sigsvæði og lítll vöxtur í Skálm.

Freysteinn segir að þau merki sem menn sjái núna geti bæði átt við um hlaup og lítið eldgos. Þá hafi óróinn verið að breytast og dregið hafi úr atburðarásinni. Hámark hlaupsins hafi verið þegar það fór um Múlakvísl og hreif með sér brúna. Síðan hefur sjatnað í ánni og skjálftaórói hefur minnkað.

Skyndileg aukning á vatnsmagni varð í Skálm á níunda tímanum. Skálm rennur undan Kötlujökli, nokkru austar en Múlakvísl.