Hugmyndaleitin gengur vel

Þátttaka í hugmyndaleit um framtíðarskipulag á Þingvöllum hefur verið góð.

Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður er ánægður með þátttökuna, en segist þó búast við að íslenska aðferðin verði í hávegum höfð; að flestar tillögur komi síðustu vikuna.

„Ég legg áherslu á að þetta þurfa ekki að vera margbrotnar hugmyndir. Það nægir að setja nokkrar línur á blað og skýra tillöguna,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið.

Ólafur segir fjölda manns hafa komið að máli við starfsfólk á Þingvöllum með tillögur. Það stoði hins vegar lítt ef þeim er ekki skilað í hugmyndasamkeppnina. Menn geti viðrað hugmyndir sínar hvar sem er, en þátttaka sé forsenda þess að til þeirra verði tekin afstaða.

Hugmyndaleitin stendur til 20. ágúst og að henni lokinni tekur dómnefnd til starfa. Hún mun meta hugmyndirnar nafnlaust. Ólafur Örn vonast til að hægt verði að hefja vinnu að nýju skipulagi á næsta ári, en dómnefndin sé hins vegar ekki bundin af því.

Á laugardaginn verður dagskrá á vegum Þingvallanefndar í Fræðslumiðstöðinni við Almannagjá.

Þar verður hugmyndaleitin kynnt, en einnig farið yfir náttúrufar, sögu og ferðamennsku í þjóðgarðinum. Hefst dagskráin klukkan 11.

Frétt Vísis

Fyrri greinSelfoss settist á Stólana
Næsta greinSýning fyrir börn á öllum aldri