Hugmynd um kornþurrkun við Þjórsá

Hugmyndir hafa komið fram um að byggja stóra kornþurrkunarstöð við Þjórsá, í tengslum við fyrirhugaðar virkjanir í ánni.

Unnt er að auka mjög hlut innlendra hráefna í fóðri dýra, ekki síst svína. Til þess þarf að stórauka kornrækt í landinu.

Hörður Harðarson og Björgvin Þór Harðarson, bændur í Laxárdal, leggja til að byggð verði stór kornþurrkunarstöð í tengslum við virkjanir í neðri Þjórsá. Rafmagnið yrði notað beint til þurrkunar og brú hjá Árnesi myndi auðvelda flutninga á korni til og frá stöðinni.

Svínabúið í Laxárdal framleiðir meginhluta fóðursins úr korni af eigin ökrum. Uppistaðan er íslenskt bygg en einnig eru hafnar tilraunir með ræktun á hveiti, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.