Hugarflugsfundur í Hveragerði

Fjöldi hugmynda fæddist á hugarflugsfundi Hvergerðinga í fyrrakvöld þar sem rætt var um hátíðir og uppákomur hér í Hveragerði.

Sérstaklega var fjallað um Blómstrandi daga og Garðyrkju- og blómasýninguna Blóm í bæ en einnig var farið vítt og breitt yfir svið annarra hátíða.

Um þrjátíu manns mættu á fundinn og var hópnum skipt á fimm borð sem öll fjölluðu um sömu lykispurningarnar. Var greinilegt á hlátrasköllum og orðaskiptum að fólk skemmti sér hið besta. Á fundinn mætti hópur ungmenna frá félagsmiðstöðinni sem tók virkan þátt í fundinum og kom með fjölmargar gagnlegar ábendingar.

Bæjaryfirvöld munu vinna úr gögnum fundarins á næstu vikum en ef bæjarbúar luma á fleiri hugmyndum eru þeir hvattir til að senda þær annað hvort til bæjarstjóra aldis@hveragerdi.is eða til menningar og frístundafulltrúa jmh@hveragerdi.is.