Hugðist skipta á þýfinu og fíkniefnum

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær þrítugan Reykvíking í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað úr bifreiðum á Selfossi. Maðurinn reyndi svo að skipta þýfinu fyrir fíkniefni.

Í lok janúar á þessu ári fór maðurinn inn í fjórar bifreiðar í austurbæ Selfoss, m.a. fyrir utan Fossnesti og Nettó við Austurveg. Úr þeim stal hann sólgleraugum, vasahníf, seðlaveski, vettlingum, lyfjum og farsímum en hann hugðist svo skipta á þýfinu og fíkniefnum. Þegar lögreglan handtók manninn hafði hann í vörslu sinni 0,19 gr af maríhúana og fjaðurhníf.

Maðurinn játaði brotið skýlaust. Hann hefur átta sinnum áður sætt refsingu, m.a. tvívegis fyrir vopnalagabrot en einnig fyrir brot á ávana- og fíkniefnalögum. Maðurinn var á skilorði og því var dómurinn nú lengdur um sextíu daga.

Hann var því dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en refsingin fellur niður haldi hann skilorð í þrjú ár. Fíkniefnin og hnífurinn voru gerð upptæk og manninum var gert að greiða skipuðum verjanda sínum 50.000 krónur í sakarkostnað.

Fyrri greinGuðmundur hættur í bæjarstjórn
Næsta greinFengu hjól að gjöf „frá uppvakningunum“