HSU semur við TRS

Í kjölfarið á tilboðum vegna örútboðs, hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands samið við Tölvu- og rafeindaþjónustu Suðurlands ehf. um rekstrarþjónustu á tölvu- og símkerfum stofnunarinnar.

Nær samningurinn m.a. yfir hýsingu og rekstur miðlægs tölvubúnaðar og símkerfis, rekstur netkerfa, rekstur notendabúnaðar og notendaþjónustu, kerfisveitu, afritunarþjónustu, tækni- og rekstrarþjónustu.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands þjónar yfir 27.000 íbúum í einu víðfeðmesta heilbrigðisumdæmi landsins sem nær allt frá Hellisheiði í vestri að Hornafirði í austri. Á heilbrigðisstofnuninni er veitt öll almenn heilbrigðisþjónusta á sviði heilsugæslu, sjúkrahúsa og hjúkrunarrýma, auk sérhæfðrar móttöku og göngudeildarþjónustu. Starfsstöðvar eru 10 talsins, í Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfossi, Laugarási, Hellu, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum, Vík, Kirkjubæjarklaustri og Höfn. Miklar kröfur eru gerðar um öryggi í rekstri upplýsingtæknikerfa, uppitíma kerfa og viðbragðstíma. Notendur kerfa eru nú ríflega 500 talsins og eru útstöðvarnar alls um 250. Allur búnaður er samtengdur á staðar- eða einkaneti.

TRS hefur á sl. 20 árum byggt upp og rekið öfluga þjónustu hvað varðar almenna tölvu- og hýsingar- og afritunarþjónustu. TRS er þannig „tölvudeild“ fjölmargra fyrirtækja og stofnana víðs vegar um landið. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 27 manns og hafa starfsmenn yfir að ráða margskonar menntun og sérfræðiþekkingu sem til slíkra starfa er krafist. TRS rekur m.a. öflugan hýsingarsal / gagnaver sem búinn er nýjustu tækjum og tækni sem krafist er í slíkum sölum (gagnaverum) og er salurinn, húsnæði og tölvuþjónusta TRS, vottað skv. alþjóðlega ISO/IEC 27001:2013 upplýsingaöryggis- staðlinum.

Fyrri greinFSu fékk skell – og féll
Næsta greinReykinn lagði frá ruslabrennu