HSu og fangelsin semja um heilbrigðisþjónustu

Í gær var undirritaður þjónustusamningur milli Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Litla-Hrauns og Sogns um um trúnaðarlæknis- og heilbrigðisþjónustu fyrir starfsmenn fangelsanna og aðgengi þeirra að heilbrigðisstarfsmönnum HSu.

Heilbrigðisstarfsfólk HSu mun annast skráningar fjarvista og halda utan um heilsufarsupplýsingar. Nú þegar er HSu með svipaða samninga við önnur fyrirtæki á svæðinu og hefur þetta fyrirkomulag gefist vel.

Reynslan hefur sýnt að fjarvista- og veikindadögum hefur fækkað til muna við þetta og minnkandi starfsmannavelta er hjá þeim fyrirtækjum sem eru með svona þjónustusamning. Enda er markmiðið að auka starfsánægju, stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna og minnka líkur á atvinnutengdum óþægindum, sjúkdómum eða slysum.

Fyrirkomulag þjónustunnar felst í viðtalstímum hjúkrunarfræðings og trúnaðarlæknis á vinnustaðnum, sem munu veita ráðgjöf vegna veikinda eða slysa og gefa út vottorð.

Símamóttaka hjúkrunarfræðings vegna veikindatilkynninga verður á hverjum morgni og verða veikindi greind og vísað áfram til læknis sé þess þörf. Einnig er boðið uppá árlega heilsufarsskoðun, þar sem mældur verður blóðþrýstingur, kólesteról, blóðsykur, hæð, þyngd og líkamsþyngdarstuðull reiknaður.

Auk þess verður starfsmönnum boðið upp á inflúensubólusetningu sem og aðrar bólusetningar eftir atvikum, fræðslu um slysavarnir, svefnvandamál, hreyfingu, næringu og heilbrigði. Starfsmannastjóri Litla Hrauns og Sogns mun síðan reglulega fá tölfræðilegar upplýsingar um fjölda og tegund fjarvista starfsmannana.

Rúmlega sextíu starfsmenn starfa á Litla Hrauni og Sogni.

Fyrri greinSundmiðinn hækkar allstaðar nema í Árborg
Næsta grein„Ég get loksins labbað hringinn í kringum stólinn“