HSu gert að spara 70 milljónir á næsta ári

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er ætlað að skera niður um 70 milljónir króna á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012.

Stjórn Læknaráðs stofnunarinnar mótmælir harðlega þessum fyrirhugaða niðurskurði og varar við hugsanlegum afleiðingum hans á starfsemi og mönnum heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi.

Í greinargerð með ályktun læknaráðs segir að niðurskurður Velferðarráðuneytisins nemi 70 milljónum króna á ársgrundvelli sé tekið tillit til frestunar á sparnaðaraðgerðum sem framkvæma átti 2010.

„Vert er að benda á að umtalsverður sparnaður hefur þegar hlotist af hagræðingu verkferla og endurskoðun á starfsemi HSu. Hins vegar eru komin fram alvarleg áhrif af niðurskurði svo sem brotthvarf sérfræðilækna frá stofnuninni og skortur á læknum til starfa. Þannig eru ómönnuð nokkur stöðugildi heilsugæslulækna og staða lyflæknis aðeins mönnuð tímabundið í stað fast og engin viðbrögð eru við auglýsingum um lausar stöður. Eftir stendur fámennari hópur lækna sem finnur fyrir vaxandi álagi og má ekkert út af bregða til að fleiri hverfi úr starfi,“ segir í ályktuninni.

Samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins á að hlífa grunnþjónustu og heilsugæslu en ljóst er að frekari skerðing fjárframlaga mun leiða til þess að draga verður úr eða hætta grunnþjónustu.

„Sé slíkt vilji stjórnvalda þarf ákvörðun um slíka skerðingu þjónustunnar að vera ákveðin miðlægt af hálfu stjórnvalda til að misræmi verði ekki milli landshluta og allir sitji við sama borð,“ segir læknaráð HSu.

Fyrri greinFrostrósir verða á Selfossi
Næsta greinLeitað að ferðamanni í Reykjadal