HSu bygging kemst til þriðju umræðu

100 milljónir króna verða á fjárlögum 2013 til stækkunar og endurbóta á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, miðað við tillögur fjárlaganefndar sem afgreiddar hafa verið til þriðju umræðu á Alþingi.

Hefð er fyrir því að þau mál sem lögð eru fram til þriðju umræðu fái brautargengi í atkvæðagreiðslu.

Auk þessara 100 milljóna verður öðrum 100 milljónum veitt til verksins frá fasteignum ríkisins, þar sem að hluta til er um viðhald húsnæðisins er að ræða. Fyrir hefur 212 milljónum króna verið veitt til verksins á undanförnum þrennum fjárlögum.

Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri HSu, segir þessar fréttir gleðilegar, og þegar fjárveitingin verður frágengin ætti að vera hægt að hefja útboðsferli, sem er á vegum framkvæmdasýslu ríkisins, mögulega strax uppúr áramótum.

Framkvæmdirnar fela í sér stækkun og breytingu á bráðamóttöku og skammtímavistun, byggingu þriðju hæðar ofan á elsta hluta hússins, auk stigahúss og tæknirýmis.

Fyrri greinJólastund Tóna og Trix
Næsta greinMagnús Íslandsmeistari í flokki útbúinna jeppa