HSK sækir um fyrsta landsmót 50+

Héraðssambandið Skarphéðinn hefur ákveðið að sækja um að halda 1. Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið 24.-26. júní nk.

Umsóknin er gerð í samvinnu við Rangárþing ytra og Ásahrepp en frumkvæðið að því að sækja um kom frá sveitarstjórn Rangárþings ytra. Verði umsóknin samþykkt verður mótið haldið á Hellu.

Á stjórnarfundi HSK þann 12. mars sl. var samþykkt að sækja um að halda mótið, með fyrirvara um að fyrir liggi samþykki sveitarstjórnar Rangárþings ytra um að sveitarfélagið sé tilbúið að standa við þær fjárhagslegu skuldbindingar sem mótahaldinu fylgja og snúa að sveitarfélaginu.

Gert er ráð fyrir að þau mannvirki sem þegar eru til staðar á svæðinu verði nýtt og ekki verði um neinar nýframkvæmdir að ræða.

Ekki hefur verið sótt um áður að halda Landsmót á vegum UMFÍ á Hellu. Öll aðstaða sem þarf til mótshaldsins er til staðar, að því gefnu að UMFÍ samþykki að frjálsíþróttakeppnin fari fram á malarvelli.

Í auglýsingu um mótið koma fram hugmyndir að keppnisgreinum og geta þær allar farið fram á Hellu og nágrenni. Frjálsíþróttavöllur með 400 metra malarbraut er inni í miðju Helluþorpi og þar er stórt íþróttahús, 25 metra sundlaug og grunnskóli. Einn besti hestaíþróttavöllur landsins er við Hellu að Gaddstaðaflötum og þar er tjaldsvæði sem gæti nýst fyrir keppendur og gesti mótsins. Golfvöllurinn á Strönd er í um 6 km fjarlægð frá Hellu.