Hrútar sigruðu í Cannes

Kvikmyndin Hrútar, eftir Grím Hákonarson frá Vorsabæ í Flóa, vann í gær til verðlauna á Cannes kvikmyndahátíðinni í flokki nýliða og frumlegra og djarfra verka.

Alls voru 19 kvikmyndir tilnefndar í flokknum en um fjögur þúsund myndir sóttu um að komast að. Þetta er í fyrsta sinn í 68 ára sögu keppninnar sem íslensk kvikmynd í fullri lengd vinnur til verðlauna á hátíðinni.

„Þetta er í rauninni stór og persónulegur sigur fyrir mig og sigur fyrir íslenska kvikmyndagerð. Og bara frábært. Maður er bara í skýjunum,“ sagði Grímur í samtali við RÚV. Hann bætir við að verðlaunin hafi mikla þýðingu fyrir myndina.

„Alveg brjálæðislega mikla þýðingu upp á dreifingu og að hafa unnið þessi verðlaun hjálpar myndinni í sölu, til dæmis hérna í Frakklandi. Hún fer í sýningar hérna í nóvember og þetta gulltryggir að hún fær góða aðsókn og líka upp á framhaldið varðandi aðrar hátíðir og allan þann pakka,“ segir Grímur.

Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi. Þegar riðuveiki kemur upp í dalnum grípur um sig mikil örvænting á meðal bændanna þar. Yfirvöld ákveða að skera niður allt sauðfé til þess að sporna við útbreiðslu sjúkdómsins. Bræðurnir standa frammi fyrir því að missa það sem er þeim kærast og grípa til sinna ráða.

Tökur fóru fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi.

Fyrri greinÓlafur og Dorrit á Lundi
Næsta greinPáll Bragi landsliðseinvaldur á HM