Þrjú hundruð metra löng hrunvörn við Holtsnúp undir Eyjafjöllum verður boðin út á næstu vikum og er stefnt að því að framkvæmdir hefjist í vor.
Vegagerðin hefur haft þennan stað til skoðunar um nokkurt skeið og lét hanna fyrirhugað mannvirki í kjölfar hörmulegs banaslyss sem varð á þessum stað í mars 2025. Einnig hefur verið skoðað að færa veginn sem væri framtíðarlausn en töluvert kostnaðarmeiri.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysinu og í skýrslu um slysið er því beint til Vegagerðarinnar að vinna þegar að úrbótum á veginum við Steinafjall vegna hættu á grjóthruni á veginn.
Við Holtsnúp er þekktur grjóthrunsstaður en frá banaslysinu í mars hefur tvisvar hrunið grjót úr hlíðinni, nú síðast í desember með þeim afleiðingum að hætta skapaðist og ökumaður ók á grjótið.
Vegagerðin lét hanna hrunvörn við Holtsnúp á síðasta ári en þar er gert ráð fyrir að moka svokallaðan „skáp“ inn í hlíðina á um 300 m löngum kafla og reisa tveggja metra háan „Gabion“-grjótvegg milli hlíðar og vegar. Um er að ræða járngrindarkassa fyllta með grjóti. Heildarkostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 80 milljónir króna.

Þekktir grjóthrunsstaðir við vegakerfi landsins eru 86 talsins og eru grjótvarnir við fimm verstu staðina. Hins vegar er óvíða meiri umferð en við Holtsnúp en meðaltalsumferð á dag er um 2.700 bílar. Því var talið brýnt að forgangsraða fjármögnun hrunvarnar á þessum stað.


