Hrunamenn gengnir til liðs við BÁ

Brunavarnir Árnessýslu (BÁ) standa nú loks undir nafni sem brunavarnafélag í allri sýslunni, 37 árum frá því félagið var stofnað með sameiningu Brunavarna Flóa og Skeiða og Slökkviliðs Selfoss.

Á miðnætti á nýársdag gekk Slökkvilið Hrunamannahrepps til liðs við Brunavarnir Árnessýslu og þar með eru öll slökkvilið í Árnessýslu undir merkjum BÁ.

Síðastliðinn föstudag var skrifað undir yfirlýsingu um sameiningu Hrunamanna við BÁ en þá fór fram fjölsóttur kynningarfundur á starfsemi BÁ á Hótel Flúðum. Að lokinni kynningu skrifuðu Ragnar Magnússon, oddviti Hrumanannahrepps og Kristján Einarsson, slökkviliðsstjóri BÁ, undir yfirlýsingu um inngöngu Hrunamanna í Brunavarnir Árnessýslu frá og með 1. janúar 2013.

Með sameiningunni eru Brunavarnir Árnessýslu eitt sameinað slökkvilið í sýslunni með átta slökkvistöðvar og 120 manna lið. Fram kom á fundinum að eftir sameiningu væri slökkvimáttur BÁ mikill með samæfðu liði og tækjakosti sem losar u.þ.b. einn milljarð króna ef kaupa þyrfti búnaðinn í dag.

Jóhann Marelsson, slökkviliðsstjóri á Flúðum, verður aðalvarðstjóri liðsins á Flúðum, undir merkjum BÁ. Hann og Hannes Bjarnason, fyrrverandi slökkviliðsstjóri á Flúðum voru leystir út með blómum frá hreppnum í lok fundarins. Þá þökkuðu Ragnar oddviti og Jóhann slökkviliðsstjóri öllum þeim sem komið hafa að slökkviliðsmálum á liðnum árum fyrir hreppinn, kærlega fyrir óeigingjarnt starf.

Því má bæta við að lokum að Hrunamenn þurftu aðeins að bíða í 55 mínútur eftir sínu fyrsta útkalli fyrir BÁ en kl. 00:55 á nýársnótt fengu þeir boð um sinueld austan við Laugarvatn ásamt liðunum í Reykholti og á Laugarvatni.

Fyrri greinTryggvaskáli og Skálholtskirkja friðuð
Næsta greinTólfta Selfossþorrablótið framundan